Unndísarfyrirtæki

Unndísarfyrirtæki eru fyrirmyndarfyrirtæki sem skapa atvinnutækifæri fyrir öll. Þátttaka atvinnulífsins við að skapa tækifæri og fjölga hlutastörfum er gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið allt.


Þátttaka á vinnumarkaði skiptir okkur öll máli, eykur lífsgæði og skapar rými fyrir fjölbreytileikann sem býr í hverju samfélagi.




Með tilkomu breytinganna á örorkulífeyriskerfinu er gert ráð fyrir því að fleira fólk, sem býr yfir sérfræðiþekkingu en hefur vegna slysa eða sjúkdóma horfið af vinnumarkaði og misst hluta af starfsgetu sinni, leiti aftur út á vinnumarkaðinn.


Þátttaka fyrirtækja er því nauðsynlegur þáttur í því að gefa fólki færi á að þoka sér inn á vinnumarkaðinn aftur, styðja við virkni og hjálpa til við að koma í veg fyrir félagslega einangrun.

Markmið Unndísar er að styðja með afgerandi hætti við fyrirtæki með ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgd svo fjölgun hlutastarfa verði að veruleika.


Vinnumálastofnun hefur verið falið að leiða Unndísi með það að markmiði að ná til sem flestra fyrirtækja og stofnana ríkis og sveitarfélaga.

Bónus

‚‚Við hjá Bónus höfum ráðið fólk með skerta starfsgetu í yfir 25 ár og þau hafa verið ómissandi hluti af okkar heild. Samstarfið hefur reynst okkur lærdómsríkt, aukið fjölbreytni í starfinu og fært okkur dýrmæta reynslu.” 


Gunnur Sveinsdóttir

Mannauðsstjóri Bónus

JYSK

"Það eru öll velkomin til JYSK og við viljum gefa öllum tækifæri til að skína. Við höfum verið í samstarfi við Vinnumálastofnun í mörg ár og fengið marga góða starfskrafta þaðan. Sá sem hefur starfað hjá okkur lengst hefur verið hér í 22 ár. Við mælum svo sannarlega með Unndísarráðningum því á þessu græða allir."

 

Ásdís Hannesdóttir 

Mannauðsstjóri JYSK 


Hagkaup

‚‚Við höfum um árabil verið í virku og nánu samstarfi við Vinnumálastofnun. Samstarfið felur í sér að veita einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til atvinnuþáttöku. Fjölbreytileiki í flóru starfsfólks okkar skapar sterkara starfsumhverfi og betri þjónustu. Það er okkur því bæði ljúft og skylt að vera Unndísar-fyrirtæki um ókomna tíð.” 


Sigurður Reynaldsson

Framkvæmdastjóri Hagkaups

BYKO

‚‚Við hjá BYKO erum stolt af því að taka þátt í verkefni Vinnumálastofnunar, Atvinna með stuðningi. Verkefnið stuðlar að auknum fjölbreytileika á vinnumarkaði, eflir samfélagið og opnar dyr að raunverulegum tækifærum fyrir öll, óháð starfsgetu. Þessi áhersla fellur vel að stefnu og gildum BYKO um að skapa góða upplifun af BYKO sem vinnustað og styður við að við séum virkur þátttakandi í breytingarafli sem stuðlar að jafnara og fjölbreyttara samfélagi. Gerum þetta saman !‘‘

Bakkinn

‚‚Hjá Bakkanum vöruhóteli trúum við að fjölbreyttur hópur starfsfólks geri okkur betri. Með því að skapa störf fyrir fólk með ólíkan bakgrunn og getu byggjum við upp vinnustað sem endurspeglar samfélagið okkar og eflir bæði samkennd og nýsköpun. Það er okkur sannur heiður að vera Unndísar fyrirtæki." 


Eva Guðrún Torfadóttir, Framkvæmdastjóri Bakkans 

Gæðabakstur

‚‚Þátttaka Gæðabaksturs í atvinnu með stuðningi hefur reynst heillaspor fyrir fyrirtækið og allt starfsfólk. Við höfum fengið til okkar frábært starfsfólk sem hefur flest verið lengi hjá okkur og passar vel inn í starfsmannahópinn."


Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri 

Samkaup

„Atvinna með stuðningi er tækifæri til að skapa fjölbreyttara og sterkara vinnuumhverfi þar sem hæfileikar hvers og eins fá að njóta sín og allir fá að leggja sitt af mörkum. Fyrir einstaklinginn skiptir það sköpum að fá tækifæri til að vera hluti af samfélagi, vaxa í starfi og finna tilgang. Fyrir vinnustaðinn er þetta leið til að rækta menningu þar sem samkennd, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi styrkleikum fólks eflist. Það auðgar teymið og gefur starfsfólkinu dýpri sýn á lífið. Að veita fólki tækifæri til atvinnu með stuðningi er mikilvægur þáttur í samfélagslegri ábyrgð okkar allra og forréttindi sem gefur okkur tækifæri til að vera hvatning og fyrirmynd í því að móta betri og réttlátari vinnumarkað fyrir alla" 


Sædís Kristjánsdóttir, Mannauðsstjóri

Vinnumálastofnun

„Sem stofnun sem vinnur að þátttöku sem flestra  á vinnumarkaði  þá höfum við lagt áherslu á að bjóða upp á störf sem henta starfsfólki með skerta starfsgetu. Okkar reynsla er sú að  fjölbreytileiki í starfsmannahópnum  styrkir starfsemina  og  ýti undir  góða vinnustaðamenningu sem byggir á ólíkum hæfileikum og reynslu allra starfsmanna."


Hallveig Ragnarsdóttir mannauðsstjóri Vinnumálastofnunar

Krónan

Krónan leggur mikið upp úr því að taka þátt í fjölbreyttum atvinnutengdum verkefnum. Að veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri á vinnumarkaði er mikilvægt skref í átt að meiri jöfnuði og virkri þátttöku allra í samfélaginu. Krónan sýnir þannig samfélagslega ábyrgð og stuðlar þetta einnig að fjölbreyttara starfsumhverfi. Við höldum ótrauð áfram þátttöku okkar eins og við höfum gert í fjölda ára og hvetjum svo sannarlega fyrirtæki til þess sama. 


Ásta Bærings – forstöðumaður mannauðs og menningar